Flest verðum við fyrir því að finna fyrir verk af og til t.d. höfuðverk, magaverk, bakverk o.s.frv.
Verkurinn gengur yfirleitt yfir af sjálfu sér, stundum með hjálp lyfja og/eða annarra aðferða.
Krónískur verkur er af allt öðrum toga. Annars vegar er verkur sem kemur eftir þekktan áverka (t.d.
hálshnykkur eftir aftanákeyrslu) eða af völdum sjúkdóma. Verkurinn er þá af þekktum uppruna.
Hins vegar eru krónískir verkir sem eiga sér enga skýringu og engan þekktan uppruna.
Krónískir verkir standa yfir mánuðum eða árum saman. Áhrif krónískra verkja eru oft yfirþyrmandi
fyrir einstaklinginn sem og fjölskyldu hans. Lífið snýst orðið eingöngu um verkina, viðkomandi á erfitt
með að stunda vinnu eða tómstundir. Hann dregur sig þá inn í skel og fer jafnvel að forðast mannleg
samskipti. Líkamlegt álag getur orðið einstaklingnum ofviða og framkallað meiri verki. Verkirnir
leiða svo til mikillar streitu og þunglyndis. Svefninn raskast iðulega. Þreytan eykur svo á verkina og
einstaklingurinn er kominn inn í vítahring sem hann sér enga leið út úr.
Meðferð felst oft í lyfjum og sá sem þjáist af krónískum verkjum fer þá að nota blöndu af verkjaog/
eða bólgueyðandi lyfjum, kvíðastillandi-og/eða þunglyndislyfjum og jafnvel svefnlyfjum. Sumir
verða háðir lyfjunum sem eru þó ekki beint að hjálpa einstaklingnum til að ná bata.
Umhverfið er einnig oft erfitt viðureignar, því skilningur á vandamálinu er takmarkaður. Þannig er
einstaklingurinn oft stimplaður sem aumingi, ímyndunarveikur eða þaðan af verra.
Hvað er til ráða? Er til leið út úr vandanum?
Fyrsta skrefið er að fá beiðni hjá lækni og finna sjúkraþjálfara sem einstaklingurinn treystir og líður vel
með. Sjúkraþjálfari þarf að meta skjólstæðinginn heildrænt og ákveða meðferð út frá því. Þessi nánu
samskipti milli sjúkraþjálfara og skjólstæðings gera viðkomandi oft auðveldara með að tjá sig og opna
sig. Reyna verður að komast að rótum vandans. Oft er um gamlan áverka að ræða sem er löngu
gleymdur en situr í undirmeðvitundinni. Geymt en ekki gleymt á svo sannarlega við þetta
sköpunarverk sem mannslíkaminn er.
Við þetta stöðuga verkjaferli skapast mikil spenna, jafnt andlega sem líkamlega. Spennunni fylgja svo
enn meiri verkir. Mikilvægt er því fyrir einstaklinginn að læra að slaka á. Með slökuninni næst betri
svefn sem þar með hefur áhrif á verki og þreytu. Skjólstæðingurinn verður jákvæðari, fær jafnframt
aukna von um að eitthvað sé til ráða. Hann er betur búinn undir frekari meðferð en hvað hentar
hverjum og einum er ákaflega misjafnt.
Sjúkraþjálfarar búa yfir mörgum aðferðum sem gagnast við verkjum, m.a. hljóðbylgjum. laser,
blandstraum, stuttbylgjum, hitameðferð, mjúkpartameðferð, teygjum, liðlosun o.s.frv. Mikilvægt er
að bæta líkamsstöðu og leiðbeina um líkamsbeitingu. Setja þarf að lokum upp einstaklingsmiðað
æfingaprógramm sem viðkomandi getur hugsað sér að stunda áfram. Réttar æfingar auka líkamlegt
úthald og -styrk en ekki síður andlegt úthald og -styrk.
Markmið meðferðarinnar er að skjólstæðingurinn geti stundað athafnir daglegs lífs og að hann finni
hjá sér þörfina og getuna til sjálfshjálpar án lyfja.Þetta ferli getur tekið langan tíma og er mjög
einstaklingsbundið hversu vel eða fljótt hver og einnsvarar meðferðinni, en þolinmæðin þrautir vinnur allar !